You are currently viewing Ágæt vika á okkar svæðum
Ágæt vika á okkar svæðum

Þá er enn ein vikan liðin af þessu sólarsumri og menn eru að fá hann. Við erum nokkuð roggin með veiðina á okkar svæðum og má þar sérstaklega nefna að Affallið gaf yfir 100 laxa viku sem er hreint stórfenglegt. Og þetta er fjarri því allt smálax. Við höfum heyrt af nokkrum fiskum yfir 90 cm og eitt töll sem var áætlað vel yfir meter sleit eftir langa viðureign.

Eystri Rangá hefur verið í fínu formi svona þegar hún var til friðs. Við misstum úr nánast tvo daga þar og einnig á Austurbakka Hólsár vegna þess að það vætti fullmikið í tún þrjá sólarhringa í röð. Samt var vikuveiðin 372 laxar eða tæpir þrír laxar á stöng á dag. Við erum mjög spennt fyrir næstu viku og það gæti gefist vel núna í kjölfarið á óveðrinu.

Við viljum minna á ódýrar stangir í október en við veiðum ána einungis með 12 stöngum í október og því feikipláss fyrir hverja stöng. Við eigum einnig eftir tvær stangir í lok ágúst og eina 14-16.09. Hér má skoða og skella sér á stöng: Eystri Rangá Veiðileyfi

Þverá í Fljótshlíð hefur nú gefið 85 laxa og þar sem hún er nú oftast best síðsumars erum við að vona að hún verði góð á næstunni.

Á myndinni má sjá einn a þessum þykku drekum sem hafa verið að veiðast í Eystri í sumar. Myndina tók Þorsteinn Hafþórsson gæd og er laxinn 93 cm.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is