You are currently viewing Veiðifréttir 15.09.23
Veiðifréttir 15.09.23

Það er komið haust í þetta og hængarnir farnir að verða vígalegir. Veðrið síðustu daga hefur samt verið til friðs og aðstæður til veiða hinar bestu. Holl sem lauk veiðum í Eystri Rangá í gær var með 56 laxa eftir tvo daga og voru margir af þeim stórir drellar eins og sjá má á myndinni sem er af Benedikt Ólafs. Benedikt fékk þennan svaðalega hæng á svæði 3 í ánni og áætlum við hann jafnvel yfir 20 pund. Mælingin misfórst eitthvað þannig að við getum ekki staðfest það. Eystri Rangá er nú komin yfir 2000 laxa og það hefur verið góð veiði undanfarið.

Við eigum daga á góðu verði í haust í Eystri Rangá sem má skoða hér: https://kolskeggur.is/product-category/eystri-ranga/

Hólsá er enn að gefa lax og einnig er að koma nokkuð af sjóbirting. Hólsá er nú komin í 416 laxa sem er bæting frá því í fyrra þegar áin endaði í 403 löxum. Samtals er því komið ef við teljum saman Hólsá og Eystri að verða 2500 laxar.

Haustið gefur einnig góð skot í Affallið og Þverá og var þannig ágæt vika í þessum ám. Affallið er komið í 293 laxa og er þar vikuveiði upp á  75 laxa sem er harla gott. Þverá er komin upp í 59 laxa og þó það sé ekki hægt að tala um góða veiði þá er hún aðeins að braggast.