You are currently viewing Uppáhalds veiðistaðurinn – Rögnvaldur Örn Jónsson
Uppáhalds veiðistaðurinn – Rögnvaldur Örn Jónsson

Rögnvaldur sendi okkur þessa skemmtilegu frásögn af uppáhalds veiðistaðnum sínum, gefum Rögnvaldi orðið:

Heljarstígur – Eystri Rangá svæði 8

Minn uppáhaldsstaður í laxveiði seinni ár er án vafa Heljarstígur á svæði 8 í Eystri Rangá. Þarna er af minni reynslu alltaf fiskur og töluvert af honum. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að margir láti staðinn eiga sig. Ef að áin er í réttu vatnsmagni þá veð ég alltaf yfir ána vel fyrir ofan slepptjörnina og veiði staðinn hinum megin frá. Þannig næ ég að kasta á fiska án þess að styggja þá og þetta margborgar sig. Ég byrja alltaf að kasta beint á móti sleppitjörninni og veiði svo staðinn mjög langt niður eftir. Flestir fiskar taka við háa bakkann en oft eru einnig fiskar sem liggja á grynnra vatni og eru tökurnar oft ansi æsilegar. Fékk fisk þarna síðast haust sem tók efst í staðnum á grunnu vatni , fann strax að þetta var vænn fiskur og með allann strauminn þarna er erfitt að eiga við þessa fiska. Enda fór það svo að ég landaði þessum fisk neðst í Tóftarhyl. Hann reyndist vera 96 cm hrygna sem fékk frelsið aftur.
Hvet alla sem fara í Eystri að gefa þessum stað athygli þar sem veiðivonin er sannarlega mikil.

Kv, Rögnvaldur