You are currently viewing Uppáhalds veiðistaðurinn – Björn H. Björnsson
Uppáhalds veiðistaðurinn – Björn H. Björnsson

Björn sendi okkur þessa skemmtilegu frásögn af uppáhalds staðnum sínum. Myndin er fengin af láni frá mbl.is og sýnir Ólaf leigutaka með lax úr Sunnefjufoss. En gefum Birni orðið:

Sæll Jóhann,

Nokkur orð af einum af mínum uppáhaldsveiðistöðum.

Uppáhaldsveiðistaðurinn

Það var líklega árið 1989 að ég og konan mín áttum eina stöng í Laxá í Leirársveit snemma á tímabilinu og lítið var komið af laxi í ána en nóg af vatni. Við höfðum aldrei veitt þar áður á laxatíma en ég hafði veitt í ánni með frænda mínum í vorveiði þegar ég var unglingur. Við fórum út snemma og veiddum nokkra veiðistaði og urðum hvergi vör við fiska. Þegar við komum að Sunnevufossi (í dag er hann kallaður Sunnefjufoss) þá læddum við okkur upp á klettana og skyggndum hylinn. Þar var lítið að sjá nema alveg neðst niðri á broti, þar lágu nokkrir laxar sem biðu eftir að færa sig ofar í ána.

Nú var sett upp hernaðaráætlun, ég átti að reyna við fiskana og konan átti að sjá um að landa. Við ákváðum að reyna Portlandsbragðið (Portland Creek hitch) sem var ekki alveg það algengasta á þeim tíma og engar hitch túbur voru þá í boði nema kannski heima hjá einhverjum meisturum. Fyrir þá sem ekki þekkja Portlandsbragðið þá er það bara þannig að tveimur lykkjum er brugðið utan um ein- eða tvíkrækju rétt aftan við hausinn og svo hert að. Síðan er flugan dregin á hlið í yfirborðinu á sama hátt og hitch túban.

Í fyrsta kasti gerðist ekkert, flugan skeiðaði yfir hylinn en heldur ofarlega við fiskana sem lágu á brotinu. Í öðru kasti var lengt aðeins í og það var ekki að því að spyrja að þegar hún gáraði rétt ofan við þá þá sáum við okkur til skelfingar þegar einn fiskurinn lagði af stað. Ég dró fluguna eins hægt og ég gat og horfði allan tímann á fiskinn sem kom á fleygiferð á eftir henni. Það var eins og liði heil eilífð og engu líkt að sjá fiskinn æða af stað úr rólegheitunum yfir í fulla ferð og negla fluguna. Oft hef ég séð fiska taka en þessi fiskur gleymist aldrei, hvorki takan né löndunin.

Þegar við sáum að fiskurinn hafði tekið fluguna þá var ekkert um annað að ræða en að senda frúna niður fyrir klettana til að landa, en það sem var verra var það að hún var bara í lágstígvélum. Hún maldaði eitthvað í móinn yfir því að hún yrði holdvot en það var ekkert hlustað. Hún óð útí vatnið langt upp á læri og varð samstundis holdvot, þaðan upp á grynningar þar sem hún sporðtók fiskinn, enda notuðum við aldrei háf eða annað dót við að landa. Ekki fyrr en ári seinna að við splæstum í Tailer sem við notuðum svo í Vatnsdálsá í eftirminnilegri veiðiferð.

Ekki landaði hollið mörgum fiskum í ferðinni, enda upptekið við margt annað en veiðar, en minningarnar eru jafn verðmætar og ferðin var á sínum tíma.

Sunnevufoss er nettur klettur og fallegur strengur og breiða fyrir neðan. Staðurinn er nr. 11 í þessu myndbandi https://vimeo.com/309609255 í boði Guðmundar Inga Hjartarsonar. Við stóðum á klettunum neðst á myndinni og þá var all miklu meira vatn í ánni. Sunnevufoss er einn af mínum uppáhaldsveiðistöðum þó ég hafi bara einus sinni veitt hann.