You are currently viewing Fjúkandi fín veiðiferð!
Fjúkandi fín veiðiferð!

Hún Helga Guðrún Johnson sótti Þverá í Fljótshlíð heim á dögunum ásamt vinkonum sínum. Skemmst er frá því að segja að veðrið var ekki alveg upp á það besta en þær stöllur létu það mismikið á sig fá og ein þeirra sem sjá má á forsíðumyndinni – Katrín Lovísa fékk tvo laxa. Vinkvennahópurinn leitaði vars á tímabili í Krónunni á Hvolsvelli og má sjá skemmtilega hópmynd af þeim hér að neðan.

En gefum Helgu Guðrúnu orðið ;

Nú, nú … við lofuðum að gefa skýrslu úr mokveiðiferð Mósanna þetta árið. Bara svona til að setja þig inn í málið erum við allar hörku veiðikonur og hoknar af reynslu – en höfum einhverra hluta vegna verið heldur óheppnar með skilyrði í vorveiðiferðunum. Þær hafa raunar verið kenndar við stafinn V: vitavonlausa vorveiðiferðin í vitlausu veðri.

Ferðin í Þverá átti að marka upphaf nýrra tíma og tengjast fremur bókstafnum H (heilladrjúga haustveiðiferðin í himnesku veðri) en hvað gerðist? Jú auðvitað skullu á okkur leifar af fellibyl með slíkum hviðum að loka varð þjóðvegi 1 frá Markarfljóti austur til Hafnar í Hornafirði. Auðvitað, segir sig sjálft. 🙂

Við stöllur reyndum nú samt að krækja í eitthvað hreistrað og brugðum á það ráð að festa nettustu veiðikonuna í spotta og tjóðra við bílinn, slaka henni svo af og til út að á og láta hana sjá um að koma aflanum á land. Þetta tókst með ágætum, hún fékk 2 laxa og þurftum við hinar því ekki að láta veiðarnar trufla sögustundir í bílnum. Þetta voru ágætir laxar, 67 og 77 cm, minnir mig. Sá stærri var hrygna og var sleppt. Þeir voru bókaðir í veiðibókina á Hellishólum.

Það viðurkennist hér með að við fórum ekki víða, vorum mest á nr. 47-50 á miðvikudeginum, reyndum 20-21 á fimmtudeginum en það var bara ekki stætt, við eigum myndbönd því til staðfestingar. Hröktumst meira að segja inn í Krónuna á Hvolsvelli í leit að skjóli … 🙂 

Hinn margfrægi 48 reyndist líflegastur, sáum talsvert af fiski þar, stökk meira að segja oft og um allt – en hann virðist annars liggja djúpt og lítil taka.

Fljótshlíðin var fögur sem fyrr – ekki síst fyrir fellibylinn – og alltaf er dásamlegt að flakka um þetta svæði og ekki loku fyrir það skotið að við vinkonurnar leggjum aftur leið okkar á þessar slóðir. Takk fyrir okkur – og hér fylgja tvær myndir af veiðikonunni knáu, Katrínu Lovísu Ingvadóttur og ein af hinum kempunum sem voru “blown away” í þessum leiðangri og uppskáru lítið annað en sykurlaust gos, snakkpoka og Vogaídýfu að launum.

Bestu kveðjur,
Helga Guðrún
(hinar eru Hulda Gunnarsdóttir og Anna Katrín Guðmundsdóttir).