You are currently viewing Neðra Svæði A. Hólsár 2023
Neðra Svæði A. Hólsár 2023

Neðra svæðið á Austurbakka Hólsár kom ansi vel út í sumar og voru staðir þar sem voru hreinlega pakkaðir af laxi á besta tíma. Þá erum við sérstaklega að tala um stað númer 13 sem gaf flotta veiði löngum stundum.

Ástæðan fyrir þessari bætingu á veiðinni má tvímælalaust rekja að hluta til þess að við settum tvær tjarnir á svæðið sem voru að gefa legufisk árið 2023. Önnur tjörnin er einmitt rétt fyrir ofan stað númer 13 og hún var að svínvirka. Við slepptum að sjálfsögðu líka í þessar tjarnir fyrir næsta ár.

Heildarveiðin á svæðinu var 95 laxar en vel að merkja þá veiddist annað eins af sjóbirting og hann gat verið rígvænn. Ég fyrir mitt leyti fúlsa ekki við sjóbirting í sömu stærð og lax og finns jafnvel skemmtilegra að veiða hann.

Nú standa til nokkrar breytingar á svæðinu fyrir næsta sumar þar sem í bígerð er að reisa hús og selja þá svæðið í tveggja daga hollum með húsi. Þar með gerbreytist aðstaðan fyrir veiðimenn en hún var engin fram til þessa.

Við ættum að vita með vissu hvort húsið muni ná að rísa fyrir næsta sumar um miðjan janúar. í framhaldi af því hefjum við sölu á svæðinu hvort sem það verða stangir – dag í senn eins og verið hefur eða tveggja daga holl.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is