You are currently viewing Fréttir af veiðinni
Fréttir af veiðinni

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að þetta sumar er ekki að fara í sögubækurnar sem neitt afbragð en svona er þessi blessaði veiðiskapur, það koma frábær sumur, ágæt sumur og svo léleg sumur en alltaf er þetta gaman.

Þegar loks fór að rigna í Rangárþingi þá fór allt í kakó í Eystri Rangá og áin var illveiðanleg í næstum þrjá daga. Það munar um að missa þrjá daga úr veiðinni og Ytri Rangá og Vestubakki Hólsár náðu toppsætinu þessa vikuna en við spyrjum að leikslokum. Þessa má þó geta að ef við teldum Austurbakka Hólsár með Eystri þá værum við enn vel yfir Ytri í toppsætinu.

Eystri Rangá stefnir í lokatölu einhver staðar vel yfir 3000 laxa markinu sem er hreint ekki svo slæmt þó það sé ekki sama veislan og í fyrra.

En þessi rigningargusa var ekki alslæm þar sem hún hleypti lífi í Þverá í Fljótshlíð sem hafði verið ákaflega róleg fram eftir sumri. Þverá í Fljótshlíð er nú búinn að gefa hátt í 80 laxa og við vonum að hún taki góðan endasprett í haust.

Affallið heldur áfram áfram þokkalegum dampi með heildarveiði upp á 43 laxa í vikunni sem er besta vikan þar í sumar, vonandi verður framhald á.

Austurbakki Hólsár hefur róast nokkuð en þar lentu menn líka í kakó líkt og í Eystri Rangá. Heildarveiðin þar er nú í 336 löxum og við reiknum með því að áin fari yfir 400 þetta tímabilið sem er ágætur árangur.

Það er fleira fiskur en lax! Á myndinni má sjá glæsilega 65 cm bleikju veidda á svæði 9 í Eystri Rangá.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is