You are currently viewing Þetta er allt að koma!
Þetta er allt að koma!

Eins og ritað hefur verið oftar en síðuritari kærir sig um að muna fór veiðin seint af stað. Affallið og Þverá sem eru síðsumarsár hafa ekki farið varhluta af því en tíðin þar fór ögn að vænkast í síðustu viku þegar báðar ár meira en tvöfölduðu aflatölurnar á viku.

Þverá í Fljótshlíð er nú í 20 löxum og Affall í 58 löxum en auðvitað má betur ef duga skal. En þetta er allt í áttina og menn eru að sjá göngur í báðum ám og nú fer þeirra tími að koma.

Austurbakki Hólsár er nú komin í 187 laxa sem er ágætt, ekki jafn gott og í fyrra en það þýðir lítið að miða alltaf við afburðaár. Mín tilfinning er að Austurbakkinn fari hátt í 400 laxa þetta sumarið sem væri mjög ásættanlegt og yfir meðaltali, allt umfram 400 er bónus.

Eystri Rangá er nú komin í 864 laxa og er með vikuveiði upp á 372 laxa sem er fjári góð veiði. Nú förum við að sjá stórar vikur úr henn blessaðri.

Á myndinni má sjá Gísla Þór Axelsson með flottan lax úr Eystri Rangá

 

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is