You are currently viewing Opnun Eystri Rangár í sölu – júníveiðin
Opnun Eystri Rangár í sölu – júníveiðin

Eystri Rangá hefur opnað fyrir laxveiði um 15 júní síðustu ár en við höfum seinkað opnun til 20.06 og eru fyrstu dagarnir nú komnir í sölu. Verð á stöng á dag er aðeins frá 79-89 þús og er hægt að næla sér í stöng á opnunardaginn á 89 þúsund. Eingöngu eru seldar 12 stangir þessa daga og er veitt frá 8-20 án hlés. Ánni er skipt í 4 svæði og veiða 3 stangir hvert svæði, skipt er um svæði á 3 tíma fresti þannig að menn veiða alla ána á einum degi.

Veiðimenn þurfa að setja allan lax sem veiðist þessa júnídaga í kistur og er þessi tími gríðarlega mikilvægur fyrir framgang árinnar. Eystri Rangá hefur í gegn um tíðina verið þekkt fyrir snemmgengan stórlaxastofn og til að halda honum við þurfum við laxana í klak. Veiðin í júní hefur oft verið ævintýralega góð og eitt árið veiddust yfir 600 laxar í júní. Veiðin í fyrra olli nokkrum vonbrigðum en við vonumst eftir mun betri árangri í ár.

Það er fátt skemmtilegra en berjast við glænýjan stórlax í Eystri Rangá í júní. Ert þú tilbúinn í ævintýri?

Á myndinni má sjá Maros með 102 cm lax sem veiddist í Eystri Rangá í júní.

Veiðileyfi má sjá og kaupa hér: Eystri Rangá – veiðileyfi

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is