You are currently viewing Vorveiðin 2021
Vorveiðin 2021

Nú hefur vorveiðin á Austurbakka Hólsár verið opin í rétt yfir mánuð og hafa flestir skemmt sér ágætlega þótt veiðin hefði mátt vera betri. Við lentum í þessum kuldahremmingum í byrjun tímabils og veiddist þá nánast ekkert í tíu daga. Eftir það voru hollin að kroppa þetta nokkra fiska en við viðurkennum það að við hefðum viljað sjá meiri veiði. Kunnugir menn segja að þetta vorið hafi þetta verið mun daprara en undanfarin ár.

Fimm þúsund sjóbirtingum sem voru komnir hátt í tvö pund var sleppt af svæði sex í Eystri síðasta haust en við höfum ekki orðið varir við þá neðar í vantakerfinu og spurning hvar þeir halda sig blessaðir. Annars er það þannig með sjóbirting að hann er hægvaxta og getur orðið mjög gamall, sé hann drepinn í miklum mæli eins og raunin hefur verið í Hólsá síðustu ár þá kemur að því að hann verður æ sjaldgæfari á færi. Við  ætlum að reyna að snúa þessari þróun við með því að skylda sleppingar á öllum birtingi. Þessar aðgerðir taka tíma að skila sér en þegar þær gera það þá verður veisla fyrir alla enda er svæðið þekkt frá fornu fari sem stórgott sjóbirtingssvæði.

Á myndinni má sjá Helgu Kristínu með flottan birting af svæðinu, við viljum fleiri svona í framtíðinni.

Lifi sjóbbinn!

Jóhann Davíð