You are currently viewing Að byrja á toppnum!
Að byrja á toppnum!

Síðuritari hefur heyrt af veiðimönnum sem hafa byrjað ferillinn á fiski sem kom þeim beint í 20 punda klúbbinn, svo eru aðrir sem reyna alla ævi að komast í klúbbinn án árangurs þrátt fyrir mikla ástundum. Svona er blessuð veiðin, við viljum þann stóra og hann er alltaf að koma í næsta kasti.

Ég velti því samt fyrir mér hvort það sé gott að byrja svona á toppnum? Sem veiðimaður ertu alltaf að reyna að toppa þig og ef þú byrjar á 20+ punda fisk þá gæti það orðið erfitt. En líklegast er það bara lúxusvandamál, ég hefði alveg tekið einn 20 punda sem minn fyrsta enn hann var 10 pund sá og ég man eftir honum eins og gerst hafi í gær.

Eg rita þessar hugleiðingar þar sem ég var óhemju heppinn í fyrstu ferð tímabilsins og náði þá hæng í Eystri Rangá sem var 95 cm, hnausþykkur og fallegur. Ég mun að öllum líkindum ekki ná að toppa hann í sumar en reyni þó. Í næsta kasti kemur einn 102 cm!

Annars er af veiði það að frétta þessa dagana á okkar svæðum að þetta er leiðinlega rólegt eins og virðist vera rauninn heilt yfir um landið. Við bíðum enn eftir auknum krafti í smálaxagöngur og vonum að rigningin sem spáð er eftir helgi hreyfi við hlutunum.

Á myndinni má sjá undirritaðann alveg í skýjunum!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is