You are currently viewing Í ökkla eða eyra!
Í ökkla eða eyra!

Já, ég veit! Ég bað um meira vatn aðeins fyrr í sumar, en fjárinn hafi það ég bað ekki um svona mikið. Nú hefur rignt með smáhléum í tvær vikur og flestar ár hér á suðvesturlandi hafa fengið aðeins meira vatn en góðu hófi gegnir. Þetta er annað hvort í ökkla eða eyra eins og kerlingin sagði.

Eystri Rangá hefur ekki farið varhluta af vatnsveðrinu og hefur hún verið erfið til veiða suma daga en þó hefur alltaf tosast eitthvað upp. Síðasta vika gaf 203 laxa sem er bara hreint ágætt miðað við aðstæður. Eystri á enn töluvert inni þegar skilyrði verða sem hagstæðust.

Austurbakki Hólsár átti við sama vatnsmagn að stríða, það var að stríða mönnum og vikuveiðin þar var ekki nema rétt um 10 laxar en þar komu líka á land sjóbirtingar sem halda mönnum við efnið. Vonandi fer meira að ganga af honum blessuðum. Við erum búin að setja í sölu ódýra heila daga í október án veiðihúss sem má skoða hér: Hólsá Austurbakki veiðileyfi

En önnur ársvæði í Rangárþingi græddu á bleytunni og vatnið kom hlutunum á hreyfingu þar.

Þverá átti núna góðar tvær vikur þar sem 40 laxar komu á land og þar af einn 100cm og aðrir 90 plús. Við eigum nokkur ódýr holl eftir í október í Þverá sem má skoða hér: Þverá veiðileyfi

Affall átti ágætis viku og þar kom vatnið sér vel, heildar vikuveiðin var 57 laxar. Affallið hefur gefið marga stóra í sumar og á meðfylgjandi mynd má sjá Magnús Örn með 90 cm lax.

Veiðikveðjur

Jóhann Davíð –  johann@kolskeggur.is