You are currently viewing Af maðkaopnun í Eystri og fl
Af maðkaopnun í Eystri og fl

Eystri Rangá opnaði fyrir blandað agn eftir hádegi þann 01.09 með ágætis árangri. Hópurinn sem var með maðkaopnun þetta árið er frá Finnlandi og eru það mest megnis óvanir veiðimenn og sem dæmi um það þá komu sex maríulaxar á land á fyrstu vaktinni. Ágæt veiði hefur verið hjá hópnum þrátt fyrir það eða á milli 60-70 laxar á dag. Spennandi verður að sjá framhaldið í Eystri.

Affallið heldur áfram í ágætis gír og síðasta holl fyrir maðkaopnun var með 21 lax. Maðkaopnunin sjálf í ánni hefur verið róleg þar sem áin er rólega veidd eða á eingöngu eina til tvær stangir.

Þverá er hreint ekki í sínu besta formi en menn eru þó sem betur fer að gera veiði í ánni. Vikuveiðin í ánni var tíu laxar og við vonum að hún fari að taka kipp með haustinu sem hefur oft verið hennar tími.

Austurbakki Hólsár gaf 18 laxa í vikunni og eitthvað af sjóbirtingi. Sjóbirtingur er ekki farinn að ganga af krafti og bíðum við spennt eftir honum blessuðum.

Myndin með fréttinni er af spænskri veiðikonu með glæsilegan stórlax úr Affallinu. Honum var að sjálfsögðu sleppt.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is