You are currently viewing Þessi óstöðvandi bjartsýni
Þessi óstöðvandi bjartsýni

Það er svo skrýtið þetta veiðimannaeðli. Það er eitt sem er innbyggt í okkur veiðimennina og það er þessi bjargfasta yfirmáta bjartsýni.

Hvaða veiðimaður hefur ekki lent í því að eiga túr bókaðann og horfur ekki beinlínis góðar, flóð í ánni, engin lax sést í mánuð, ekkert vatn – ja eða blanda af þessu öllu. Mæta samt rígspenntur á bakkann og búast við því að ekkert af þessu hafi áhrif á þig. ÞÚ MUNIR SKO VEIÐA!

Byrja svo brosandi að kasta í kakóið og búast við rífandi töku hvað úr hverju en ekkert. Kasta svo aftur og ekkert, kasta svo aftur og ekkert og þegar hér er komið sögu fer brosið ögn að síga. Fara svo á næsta stað og endurtaka leikinn en bölvaður efinn fer hér að læðast að og brosið er löngu farið. Játa sig að lokum sigraðan en vera algerlega viss um að þetta verði miklu betra í fyrramálið…

Við veiðimenn erum þrjósir andskotar og gefumst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Síðuritari var eitt sinn að veiða í fallegri á í Skotlandi, breiðurnar voru sem hannaðar fyrir Spey köst enda hét áin Spey!

Við mættum nokkrir vinir frá Íslandi með ómælda bjartsýni í för og leist vel á aðstæður. Við vöknuðum snemma fyrsta morguninn og byrjuðum að kasta. Við köstuðum og köstuðum á hverja fallegu breiðuna á eftir annari og alltaf sama sagan – ekki högg. Og það sem verra var, við sáum ekki kvikindi. Þannig leið tíminn áfram og á þiðja degi ákvæðum við að spyrja gillíinn hvað hefði eiginlega veiðst mikið á svæðinu okkar. Hann sagði að það hefðu komið fimm laxar, jæja þetta er þá ekki vonlaust hugsuðum við og spurðum í von hvort þeir hefðu komið í síðustu viku? Nei, það er sko heildarveiðin frá því það var opnað fyrsta febrúar sagði maðurinn. Við vorum þarna í lok maí!

Við veiddum fjórða daginn með brostna von í hjarta, en ákváðum svo þrátt fyrir að hafa keypt viku að segja þetta gott. Síðustu þrjá veiðidagana sátum við á krá í Glasgow!

Við ætlum samt að fara afur að því við vitum að þetta verður allt örðurvísi næst og allir hylir fullir af laxi!

Myndin er tekin að kveldi fjórða dags þegar ég nennti ekki einu sinni í vöðlurnar lengur! Rauðu happasokkarnir virka greinlega ekki í útlöndum.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð