You are currently viewing Fín veiði síðustu daga!
Fín veiði síðustu daga!

Við sögðum ykkur frá því fyrr í vikunni að Affallið hefði aldeilis sprungið út og þar er ekkert lát á góðri veiði. Í gær komu 18 laxar úr Affallinu og var þó aðeins veitt á 3 stangir, sex laxar komu svo af morgunvaktinni í morgun.

Þverá í Fljótshlíð er því miður ekki alveg jafn fljót til en þar hafa komið samtals 18 laxar og töluvert af sjóbirting. Vonandi fer Þverá að hrökkva almennilega í gang á næstunni en hún á mikið inni. Ósinn hefur verið kannaður og það á ekkert þar að hamla göngum.

Eystri Rangá átti sinn besta dag í gær með 54 löxum á land og á Austurbakka Hólsár komu sex en þar var aðeins veitt hluta dagsins á tvær stangir. Göngur eru því með vissu að aukast með degi hverjum og framhaldið verður mjög spennandi.

Myndin sem er meðfylgjandi er að þessu sinni ekki af svæðum Kolskeggs heldur af sonum síðuritara sem halda stoltir á smálaxi ættuðum úr borgarfirði.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð