You are currently viewing Veiðifréttir af okkar svæðum
Veiðifréttir af okkar svæðum

Heldur var þetta treg byrjun en þetta er allt að koma. Laxinn á okkar ársvæðum virðist hafa kunnað svo vel við sig í hafinu að hann er að skila sér óvenju seint en á móti ákaflega vel haldinn. Þeir sem hafa verið að koma hafa verið í fínum málum í æti í sjónum og nú er bara að vona að restin segi skilið við hlaðborðið og fari að fjölmenna heim.

Affallið var óhemju seint í gang og fyrsti laxinn þar veiddist þann 14.07, veiðimenn sáu fleiri laxa og við vonum að þetta fari að hrökkva í gang. Sem betur fer voru sjóbirtingar dregnir á land áður en laxinn sýndi sig svo þetta var ekki aldautt.

Þverá í Fljótshlíð er líka ögn seig en hefur þó gefið núna 12 laxa og 15 sjóbirtinga.

Bæði Affallið og Þverá eru miklar síðsumarsár þannig að við gefum aldeilils ekki upp neina von um að þetta geti ekki orðið gott sumar þar.

Neðra svæðið á Austurbakka Hólsár hefur verið glettilega gott og þar eru koninr hátt í 20 laxar og hellingur af vænum sjóbirting.

Aðalsvæði Austurbakka hefur líka verið að gefa ágætlega og síðustu holl með þetta 15-20 laxa. Á myndinni má einmitt sjá Óla G. Guðmunds með rosalegan bolta sem hann fékk á svæðinu í gær.

Svo að síðustu þá er risinn líklega að vakna um þessar mundir, Eystri Rangá gaf 38 laxa í gær og morgunvaktin í dag gaf 20 laxa þrátt fyrir mikinn kulda og lélega töku. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Heilt yfir er þetta vonandi allt að koma, þeir síðustu verða oft fyrstir!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is