You are currently viewing Stuðið að hefjast!
Stuðið að hefjast!

Þetta er allt í áttina á okkar laxveiðisvæðum og göngur eru að aukast með degi hverjum og við erum að vona að stuðið sé að hefjast að alvöru. Svæði eitt sem hefur verið rólegt í Eystri hingað til var mjög líflegt í gær og menn voru að landa þar smálöxum ótt og títt, þetta rímar við það sem var að gerast í Hólsá en kvöldvaktin þar í gær gaf 15 laxa og þar af voru 12 smálaxar.

Smálaxarnir sem menn eru að landa eru mjög vel haldnir og gríðarsprækir sem bendir til þess að þeir hafi haft það ágætt í hafinu. Í gær var Eystri nokkuð erfið til veiða á morgunvaktinni þar sem lægðarskratti gekk yfir með hreinu ógeðisveðri, þrátt fyrir þetta var besti dagur sumarsins þar í gær eða 58 laxar á land.

Síðasta holl í Affallinu var með 15 laxa og eru það góðar fréttir að það er að detta í veiðigírinn. Þverá er enn róleg en hún er þekkt sem meiri síðsumarsá, við erum sannfærð um að hún fer að detta í meiri veiði á næstunni.

Á myndini má sjá kamapakátan greinarhöfund með stóra hrygnu úr Ármótum á Austurbakka Hólsár, þar var ákalflega líflegt í gær og fiskar stökkvandi  og greinilega göngur á ferð.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is