You are currently viewing Lokatölur úr Eystri Rangá 2021
Lokatölur úr Eystri Rangá 2021

Þá er laxveiðin búin þetta tímabilið og eftirtekjan var töluvert minni en í fyrra en það geta ekki öll ár verið metár! Eystri Rangá endaði vertíðina með 3274 laxa veidda og endaði í öðru sæti yfir flesta laxa veidda á Íslandi þetta árið. Ef við myndum telja Austurbakka Hólsár með í tölunum líkt og tíðkast vestar í Rangárþingi væri staðan önnur en hver er að hengja sig á tölur!

Þó svo veiðin hafi ekki náð sömu hæðum og í fyrra var hátt flutfall af stórlaxi sem bætti fyrir það að miklu leiti. Stórlaxahlutfall í Eystri Rangá var rétt um 30% og nokkrir laxar veiddust í kring um meterinn og sá stærsti landaði var 102 cm. Margir veiðimenn fullyrtu að þeir hefðu misst laxa sem voru tröllauknir af stærð og við höldum að það leynist nokkrir drekar í ánni sem erfitt er að koma á land taki þeir færið á annað borð.

Nú er bara að byrja að hlakka til næsta árs. Mér er tjáð að sleppingar hafi gengið mjög vel og seiði hafi litið vel út, nú er bara að vona að þau fái gott atlæti í hafinu og þá gætum við gert atlögu að öðru meti.

Með fygir mynd af undirrituðum með fjári flotta hrygnu af svæði 3 í sumar.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is