You are currently viewing Góður gangur í Eystri Rangá
Góður gangur í Eystri Rangá

Hin fínasta veiði er þessa dagana í Eystri Rangá og 467 laxar veiddust síðustu vikuna eða 67 að meðaltali á dag á stangirnar 18. Ef við leikum okkur enn frekar af tölunum þá gerir þetta tæpa 4 laxa á stöng á dag sem er hreint ekkert að kvarta yfir. Við teljum samt að áin eigi meira inni þar sem aðstæður þessa vikuna voru ekki upp á það besta, stífur mótvindur, sól og áin hrollköld á morgnana.

Eins og menn vita þá erum við með hóflegan kvóta á fiskum í Eystri Rangá eða 4 smálaxar á stöng á dag. Sumir hafa klórað sér í hausum af hverju við erum með sleppiskyldu í á sem er borinn uppi af seiðasleppingum? Þá er því einfaldlega til að svara að það verður meira til skiptana, meiri veiði og meiri gleði fyrir veiðimenn langt fram á haustið. Að auki þá sleppa þeir útlendu veiðimenn sem hafa verið í meirihluta undanfarið nánast öllu og þeir fiskar synda enn í ánni og taka kannski aftur í haust.

Við viljum minna á að við eigum spennandi daga eftir í haust, bæði í lok september og október. Hægt er að gera mjög góð kaup í veiðileyfum á þessum tíma og við veiðum ána eingöngu með 12 stöngum í október.  Hér er hægt að skoða framboðið og skella sér á stöng: https://kolskeggur.is/product-category/eystri-ranga/

Á myndinni má sjá Knút með flottan 88cm lax af Austurbakka Hólsár. Þessir lurkar eru enn að ganga og við erum að fá lúsuga stórlaxa.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is