You are currently viewing Eystri Rangá – Tölfræði 2020 – júní
Eystri Rangá – Tölfræði 2020 – júní

Eins og menn vita var veiðin í Eystri hreint stórkostleg og endaði áin í 9070 löxum. En hvernig skiptist veiðin? Hvaða svæði voru best? Hvað var mikið af stórlaxi? Af hverju er himinninn blár? Við ætlum að leitast við að svara þessum spurningum með nokkrum pistlum um veiðina í sumar, nema þessu síðastnefnda, þið verðið að gúggla það! Við þökkum Gunnar Skúla staðarhaldara og yfirgæd sem hafði veg og vanda af því að taka þessar tölur saman eftir að hafa lesið maaargar blaðsíður af veiðibókum.

Við hefðum yfirferðina á veiðinni í júnímánuði. Eins og gefur að skilja var mest af laxinum þá stórlax – hann mætir fyrst blessaður.

Eins og sjá má eru þessar tölur nokkuð áhugaverðar. Flestir laxar á land í júní voru úr stærðarflokknum 80-89 cm eða 72. Fyrsti smálaxinn veiddist þann 17 júní og svo voru þeir að reitast með þar til á bilinu 27-30 júní þegar þeir fóru að fjölmenna í partýið. Laxar í stærðinni 90+ voru 13 en ekki veiddist stærri lax í ánni en 98 cm þetta sumarið svo best síðuritari veit.

Það tóku samt nokkrir drekar sem taldir voru stærri en slitu eða sluppu úr klóm veiðimanna.  Sá sem þetta ritar missti til að mynda einn íturvaxinn á svæði 7 í Moldarhyl. Hann tók neðarlega en synti svo fumlaust upp ánna á móti straumi og áður en ég náði að bregaðst nógu fljótt við þar sem erfitt er um hlaup þarna þá sleit hann 20 punda maxima tauminn eins og tvinna!

Hvað svæði varðar þá voru þau misgóð eins og gengur.  Svæði 1 og 4 voru í sérflokki og svæði 1 hélt þeim dampi tímabilið á enda, svæði 4 aftur á móti blés svona heitu og köldu er líða fór á tímabilið. Svæði 2 og níu voru síst og kemur það ekki á óvart snemmsumars með níuna, hann virðist hafa rokið í gegn um tvistinn og auk þess er það tilfinning mín að veiðiálag þar hafi verið minna.

Samtals veiddust 147 laxar færðir til bókar í júní og er það ágætis árangur.

Á myndinni má sjá Reyni M. Sigmunds og dóttur hans með einn af þessum 90+ sem veiddust í sumar.

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is