You are currently viewing Af Hólsá og opnun Eystri
Af Hólsá og opnun Eystri

Fjárinn hafi þetta kalda vor og sumar, þetta fer svo illa í laxveiðina okkar! Það er alltént kenningin að hann sé tregari við að ganga þegar það er svona kalt og allt verði því með seinna móti hjá laxinum líkt og lífríkinu öllu þetta sumarið.

Ekki hefur beinlínis verið feitan gölt að flá í opnunum áa þetta tímabilið og við verðum bara að segja það hreint út að þetta hefur verið lélegt. Undirritaður fór sinn fyrsta túr þetta árið í Blöndu og það var dræmt en hollið náði þó fjórum á land sem var stórbæting miðað við fyrri holl. Ég fékk einn séns og sést það á myndinni hve sprúðlandi glaður ég var en brosið breyttist nánast í grátur skömmu síðar þegar sirka 12-14 laxinn sleit.

Ég er búinn að fara yfir þetta aftur og aftur síðan, ég var með nýjan taum – 11kg Maxima og hélt mig vera í góðum málum. Fiskurinn var þessi órólega týpa og stökk fjórum sinnum og kafaði djúpt þess á milli og hefur líklega náð að núa taumnum utan í stein með þessum líka skelfilegu afleiðingum fyrir mig.

En þetta var langur útuúrdúr. Líkt og aðrar ár á landinu þá hefur Hólsá verið ákaflega sein til þetta sumarið og lítið hefur verið að frétta. Nokkrir laxar hafa verið misstir en engin á land fyrr en nú í morgun þegar 83cm hængur kom á land á Háa bakka. Eystri opnaði svo nú í morgun og veiðin þar var í samræmi við aflatregðuna niðri í Hólsá. Af því sem við best vitum komu tveir á land úr Eystri í morgun og var það úr Tóftarhyl og annar í Mjóanesi, tveir láku af á Bátsvaði.

En við örvæntum engan veginn enn. Þetta kemur allt þó seint verði, við bíðum bara kuldann af okkur og bíðum þess að sá silfraði fjölmenni í partýið.

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is