You are currently viewing Eystri Rangá – Tölfræði 2020 – ágúst
Eystri Rangá – Tölfræði 2020 – ágúst

Eins og menn vita var veiðin í Eystri hreint stórkostleg og endaði áin í 9070 löxum.

En hvernig skiptist veiðin? Hvaða svæði voru best? Hvað var mikið af stórlaxi? Af hverju er himinninn blár? Við ætlum að leitast við að svara þessum spurningum með nokkrum pistlum um veiðina í sumar, nema kannski þessu síðastnefnda, þið verðið að gúggla það!

Við þökkum Gunnar Skúla staðarhaldara og yfirgæd sem hafði veg og vanda af því að taka þessar tölur saman eftir að hafa lesið maaargar blaðsíður af veiðibókum.

Næst í röðinni er ágústmánuður sem gaf bestu heildarveiðina eða 3609 laxa!

 

Þetta eru áhugaverðar tölur og margt sem kemur á óvart. Líkt og í júlí er stórlaxinn fremur liðfár eða um 9% af veiðinni. Bestu svæðin voru líkt og í júlímánuði svæði eitt með 657 laxa og svæði þrjú með 690 laxa. Sexan og nían tóku við sér en nían var áfram með lökustu veiðina. Fjarkinn var með næst lökustu veiðina sem sýnir okkur hvernig áin getur breytt sér á mili ára þar sem fjarkinn var með betri svæðum árin á undan.

Meðalveiði á stöng á dag í ágúst er 6,4 laxar sé miðað við 18 stangir en Eystri Rangá var á stundum ekki fullseld út af Kóvid. Bestu dagarnir eru í kring um maðkaopnun en þá sló áin hvert metið á fætur öðru. Besti dagurinn í ágúst og þar með í allt sumar var sá 23. með 295 laxa veidda eða meðalveiði upp á 16,3 laxa á stöng. Það er ágætis veiði sko!

Við eigum enn nokkur holl á lausu frá 23.08 -01.09 og gætu það verið spennandi dagar, aðeins fluga er leyfð á næsta ári fram að hádegi 1.09.

Á myndinni má sjá hinn unga Adam með glæsilegan maríulax.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is