You are currently viewing Uppáhalds veiðistaðurinn – Róbert Haraldsson
Uppáhalds veiðistaðurinn – Róbert Haraldsson

Eins og margir vita fórum við af stað með smá leik þar sem veiðimenn segja frá uppáhalds veiðistaðnum sínum. Fjölmargir hafa sent inn nú þegar og þökkum við góðar viðtökur.

Ef þú vilt vera með, endilega sendu smá texta og mynd af uppáhalds veiðistaðnum þínum á: johann@kolskeggur.is

Flott verðlaun í boði, tvær stangir í Eystri Rangá í júní og október. Senda má inn til 10.04 og dregið verður 15.04. En gefum Róbert orðið:

Ég á mér „nýjan“ uppáhalds veiðistað í Blöndu (fyrst Jóhann tók Breiðuna frá mér 😊). Hef veitt Blöndu í tvo áratugi og er enn að uppgötva flotta „nýja“ staði í ánni. Ég og bróðir minn veiddum svæði 3 mjög mikið í „gamla“ daga og þegar við vorum að spjalla snemmsumars í Hólahvarfi eftir að hafa verið að leið-segja útlendingum, þá segir hann mér frá stað á svæði 3 sem hann fór oft á í gamla daga. Það er leiðinlegt aðgengi að honum, brött brekka í háu grasi og stórgrýtt. Ekki fyrir alla að fara þar niður. Fiskurinn virðist geta legið hvar sem er á svæðinu miðað við reynslu síðasta sumars.

Á einni frívaktinni minni fór ég ásamt Erik staðarhaldara og ætlaði að sýna honum staðinn. Við köstuðum í smá stund og viti menn, ég set í einn hátt í 20 pundara, 97 cm . Eftir þetta fórum við að kalla staðinn „Secret Pool“.

 

Næsti kúnni hjá mér var frægur leikari. Hann var að veiða á svæði 4 með einhendu og ekki mikið hrifinn af lituðu vatni og hvað þá tvíhendu. Á þriðja degi náði ég þó að fá hann til að koma við í „Secret pool“ á leiðinni upp á svæði 4. Með í för var myndatökumaður sem var að filma allt sem fram fór. Eftir tíu mínútur setur hann í risa fisk og berst við hann í 90 mínútur (allt filmað). Þess má geta að hann stóð í hátt nær 30 mín með alla línu úti og fiskurinn alveg við það að fara niður í næsta stað, en hann náði að ná honum til baka í hylinn cm í einu. Hann vildi stranda honum (ekki háfa) og þegar það var komið að því, þá slitnar taumurinn……..ótrúleg barátta….ótrúlega svekkjandi, laxinn var án efa ekki undir 105cm, þar sem við sáum hann oft og mörgum sinnum.

Nákvæmlega viku seinna er ég að leið-segja sjötugri konu og nú vorum við búnir að tala við bóndann sem átti landið og hann var búinn að slá túnið og gefa okkur leyfi að keyra niður túnið og það gerði aðgengið mun auðveldara. Daman gerir sér lítið til og setur í risa fisk (ég er eiginlega alveg viss um að þetta hafi verið sami fiskurinn). Eftir tæpan klukkutíma þá stöndum við þrjú útí og fiskurinn er við það að koma í háfinn, hún nær ekki að snúa hausnum þannig að hann komi fyrst í háfinn og við það fær hún þessa „sniðuga“ hugmynd að grípa í tauminn og ætlar að toga hann inn í háfinn…..fiskurinn tekur einn rykk og slítur tauminn……spurning hvort að viðkomandi lax haf verið með tvo króka í sér fram eftir sumri!!!

Heyrði af Íslendingum sem voru við veiðar á staðnum stuttu síðar og settu í fisk sem sleit 20 punda taum eftir stutta baráttu – þeir sáu aldrei fiskinn!!!

Í lok Júlí átti ég veiði sjálfur með nokkrum erlendum vinum og ég fer með þeim í „Secret pool“ – set í einn stóran og missa hann niður úr hylnum og niður hraða strauminn – hlaupandi við erfiðar aðstæður – upp á klettana – nokkrir hringir eftir af línu á tvíhendu hjólinu – niður aftur og þvert yfir klettabeltið (sem sést á myndinni) – landa honum c.a. 2 km neðar – bara 94 cm 😊….þvílíkt adrenalín kick. Myndi ekki detta í huga að gera þetta aftur – enn hvað gerir maður ekki þegar maður er með „risa“ lax á hinum endanum á línunni og veit ekki hversu stór hann er. Smá svekkelsi með stærðina en mikið ævintýri og ótrúlegt að vera vanþakklátur með 94 cm fisk!!!

 

„Secret pool“ hélst ekki sem eitthvað leyndarmál og fleiri fóru að fara þangað og gaf hann yfirleitt vel. Staðurinn er kannski ekki mikið leyndarmál fyrir gamla Blöndu veiðimenn, hann hefur bara ekki verið stundaður í fjölda ára svo ég viti. Staðurinn heitir Brandstaðahylur 😉 og er núna minn uppáhalds veiðistaður og hann geymir svo sannarlega stóra fiska.

Róbert Haraldsson