You are currently viewing Fréttir af veiðinni
Fréttir af veiðinni

Þetta seina vor heldur áfram að hafa áhrif og ekki er enn allt alveg hrokkið í sama gír og í fyrra. En við erum bjartsýn á að þetta fari nú allt að koma.

Í Eystri Rangá er veiðin þetta 15-30 laxar á dag nú um stundir og enn er mest af aflanum stórlax, smálax er farinn að sýna sig en í fremur litlum mæli enn sem komið er. Smálaxinn hlýtur að fara að sýna sig í auknum mæli á næstunni og þá verður kátt á hjalla.

Affallið fór ekki varhluta af seinum göngum og þar kom fyrsti laxinn í ár ekki á land fyrr en 12.07 og hefur verið smá veiði síðan og laxar sést í ánni á nokkrum stöðum. Þverá er í sama gír, þetta er svona það sem við köllum kropp og göngur virðast ekki hafnar af krafti.

Austurbakki Hólsár er í sama gír en hollin þar undanfarið hafa verið að fá að  um 5-12 fiska og mest stórlax líkt og raunin er í Eystri Rangá.

Enn bíðum við því eftir fyrstu stóru smálaxagöngunum en það verður enn meira stuð á bakkanum þegar hann fer að sýna sig að ráði.

Á myndinni má sjá Knút Lárusson með fallegan lax af Austurbakka Hólsár, hann var þar með veiðiklúbbnum “Top of the line angling club” og náði hollið 11 löxum á tveimur dögum.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is