Enn heldur þetta áfram að vera heldur tregt á flestum okkar veiðisvæðum. Nú er svo komið að jafnvel Eystri Rangá er farinn að líða fyrir langvarandi þurrk svo ekki sé talað um Affallið og Þverá.
Í Eystri er töluvert af laxi þó ekki sé hægt að bera þetta saman við síðasta ár. Vandamálið núna í ánni er tökuleysi þar sem áin er með því minnsta sem hefur sést í vatnsmagni sem gerir það að verkum að hún er óheyrilega köld. Nú um stundir er þanning morgnuvaktin lélegri þar sem vatnið er ískalt eftir nóttina og laxinn tekur því illa. Eystri er að að gefa þetta á bilinu 30-50 laxa á dag, síðasta vika gaf 268 laxa eða 38 að meðaltali á dag sem gerir 2.1 lax á stöng á dag. Það er ekki allskostar hræðileg veiði, og er með því besta á landinu nú um stundir.
Austurbakki Hólsár er kominn í 321 lax og var vikuveiðin þar í laxi 25 stykki sem er engin óhemja en svona er þetta. Að auki er rígvænn sjóbirtingur að halda mönnum við efnið á Austurbakkanum.
Affallið er komið í 167 laxa og er það vikuveiði upp á 32 laxa þaar af voru nokkrir vel stórir og við heyrðum af einum 100 cm þaðan en eigum eftir að fá nánari fréttir af honum. Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Guðmund Hólm með 92 cm höfðingja úr ánni.
Þverá í Fljótshlíð hefur verið ákaflega döpur upp á síðkastið og þaðan eru komnir 55 laxar. Menn höfðu áhyggjur af því að ósinn væri að stoppa göngur og við kíktum á hann og rennan þar er í lagi. Það sem gæti haft áhrif er ákaflega lítið vatn í ánni sem gæti hamlað göngu. Við þurfum nauðsynlega rigningu í Rangárþingi.
Veiðikveðja
Jóhann Davíð – johann@kolskeggur.is