Friðrik sendi okkur þessa skemmtilegu frásögn og þessar frábæru myndir. Við gefum Friðriki orðið:
Uppahalds veidistadur – Straumarnir í Hvítá í Borgarfirði.
Minn uppáhalds veiðistaður er Straumarnir í Hvítá í Borgarfirði. Æskufjölskyldan hóf að fara þangað til
veiða 1957 eða 1958 og eru árin því orðin 65-66. Níunda áratuginn og framan af þeim tíunda var að vísu
lítið farið því um það leyti höfðu netaveiði og ofveiði á stöng farið illa með ána og lítið að veiðast.
Veiðirferðirnar hafa aftur orðið árlegar frá ca. 2005.
Minningarnar eru óteljandi og skipta þar jafn miklu máli félagsskapurinn, náttúran og veiðin. Fyrir utan
„fasta“ veiðimenn koma ætíð margir gestir. Aflabrögðin eru ekkert endilega í fyrsta sæti, en vitaskuld
betra að þurfa ekki að fara með öngulinn í rassinum. Sem sjaldan hefur gerst um árabil. Unaðslegt er að
njóta náttúrunnar við árbakkann, horfa á Baulu, Skessuhorn, Skarðsheiði, Hafnarfjall, Eiríksjökul,
Þjóðólfsholtið og upplifa í huganum íþróttamót og hestamót fyrri aldar. Dást að sameiningu Hvítár og
Norðurár, hvar hvítt mætir bláu.
Veiðisvæðið er ekki stórt og tveir jafnfljótir duga allan daginn, en ætíð
njóta mestrar hylli Strenghornið, Bugtin, Silungagarður, Iðan og Húsfljótið. Í gamla daga voru Straumar
draumaheimur maðkveiðinnar, að kasta góðri kippu uppeftir, með mátulegri sökku; láta beituna
sveigjast að landi á réttum stað. Spúnarnir virka vel en svarti Tóbýinn yfirleitt bestur. Nú þegar
maðkurinn er í ónáð og fluguveiðin dómínerandi er helsta áskorunin hve Norðaustan áttin er ráðandi og
stundum ansi stíf við árbakkann, en maður lærir á þetta.
Straumaferðirnar með pabba voru iðulega hinar mestu ævintýraferðir. Pabbi sagði margar sögur, sem að
einhverju leyti kunna að hafa farið á sveig við sannleikann en voru fyrst og fremst skemmtilegar. Eins og
að tröllskessur hefðu notað Skessuhornið til að skeina sig og að sandgryfja rétt hjá veiðihúsinu gamla
hefði myndast þegar hvalur tókst á loft í óveðri og lenti þar. Þessar sögur eru enn sagðar „nýliðum“, af
okkur bræðrum. Pabbi og bræður hans áttu það stundum til að skaupast með ýmsum hætti, eins og
þegar þeir við brottför eitt sinnið röðuðu vænum löxum úr Straumunum við sýkin nálægt Ferjukoti og
þóttust hafa veitt þá þar, öllum til mikillar furðu sem framhjá óku.
Friðrik Þór Guðmundsson