You are currently viewing Uppáhalds veiðistaðurinn
Uppáhalds veiðistaðurinn

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort ég gæti gert upp á milli veiðistaða. Hvort ég ætti mér veiðistað sem er staðurinn með stóru essi. Ég komst að því að sú er raunin og þurfti ég ekki að beita mig mjög hörðu við að játa það fyrir sjálfum mér. Nánar er fjallað um STAÐINN hér að neðan.

 

En þú? Átt þú þér uppáhaldsveiðistað? Ertu til í að deila því með öðrum og vinna kannski til verðlauna í staðinn? Sendu mynd af uppáhaldsveiðistaðnum þínum ásamt smá texta um af hverju þessi staður er uppáhalds. Við munum birta allar frásagnir á síðunni – kolskeggur.is og frestur til að senda inn er til 31.03. Þann fyrsta apríl munum við svo draga fjóra út og fær hver að launum eina stöng í einn dag í Eystri Rangá í júní eða október. Sendið á: johann@kolskeggur.is

 

En já, aftur af síðuritara. Það er Breiðan. Breiðan á svæði eitt í Blöndu er kyngimagnaður veiðistaður. Breiðan er svona veiðistaður sem maður þarf að hafa mikið fyrir og þarf að sýna ómælda virðingu þar sem hún er líklega einn hættulegasti veiðistaður landsins. Og Breiðan geymir fiska sem ásækja þig í draumum, bæði þá sem þér tókst að landa með herkjum og ekki síður þá sem sluppu. Og þeir sleppa margir! Þannig háttar til að þeir eru oft að taka alveg á blábrúninni rétt fyrir ofan grænlogandi flúðrirnar og vilja oftar en ekki leita þangað niður aftur finni þeir festu í munni og einhvern dólg að toga þá til sín. Oftast er því best að taka mjög rólega á þeim til að byrja með þannig að hægt sé að plata þá hægt fjarri brúninni. Fari þeir fram af eru þeir nær oftast tapaðir.

Ég var búinn að segja ykkur að Breiðan er hættuleg. Staðhættir eru þannig að áin er breið en væð upp að hyldjúpu gili sem er í miðri ánni undir yfirborðinu. Að þessu gili þarf að vaða en passa að fara ekki of langt. Ehm, þá ertu dauður, svo einfalt er það. Að þessu gili er vaðið beggja vegna og er Breiðu skipt í suðurbakka og norður. Af þeim tveimur er sá að sunnan sýnu erfiðari og hættulegri. Þar þarf að vaða yfir rásir í botninum þannig að þú ferð upp og svo langt niður eða næstum af geirvörtum fyrir litla menn eins og undirritaðann. Á Breiðu suður þá bölvaði ég því oft að vera ekki 120 kíló þegar næstum vatnaði undir mig og ég fauk niður flúðirnar.

 

Á Breiðu suður veiddi ég líka stærsta laxinn minn á Íslandi og ég mun aldrei á meðan ég lifi gleyma því. Ég náði við illan leik að vaða út af brún og eftir nokkur köst var rifið hraustlega í. Ég fann strax að þetta var stór fiskur og tók á honum en samt með ró. En þá er vandamálið að landa. Eins og þið munið þá var ég staddur út í miðri á og þangað komst ég með herkjum. Eftir að hafa þreytt fiskinn í dágóða stund þá sá ég að ég yrði að koma mér í land vildi ég ekki missa fiskinn. Og nú voru góð ráð dýr því ég yrði hreinlega að bakka í land og nógu erfitt var að vaða þetta vísandi fram. En blessað adrenalínið kemur manni langt og mér tókst að bakka í land með stórlax á færinu. Skömmu seinna landaði ég 97 cm spikfeitri lúsugri hrygnu sem var líklega ekki undir 20 pundum. Sjá má þennan draumafisk á meðfylgjandi mynd.

Á Breiðu norður hef ég líka oft lent í svakalegum ævintýrum og landað mörgum löxum. Eitt atvik stendur þó upp úr. Ég setti í lax sem ég fullyrði að er sá stærsti sem ég hef nokkurn tíma sett í. Ég reyndi allt eftir bókinni og náði að mjaka honum frá brúninni og hélt mig í góðum málum. Þannig tókumst við á um stund og hann var Stóóór! Svo eftir háftíma eða svo fór honum að leiðast þessi kall sem vildi fá hann á land. Hann gaf í og tók beint strik á flúðirnar. Ég gat ekkert annað gert en setja bremsuna í botn, ekki gat ég hlaupið standandi í miðri ánni. Línan var svo strekkt að það söng í henni, ég rétt náði að halda honum við brúnina með allt í keng. Svo heyrðist nánast hvellur og það sem gerðist hefur aldrei komið fyrir mig hvorki fyrr né seinna. Allt varð slakkt og ég fékk bylmingshögg á ennið. Þá hafði flugan hrokkið úr fisknum og slöngvast með fítónskrafti í ennið á mér. Krókarnir voru bognir upp, hjartað á mér var brotið og ég var með sár á enninu.

 

Breiðan er uppáhalds veiðistaðurinn minn!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð

Sendu þinn uppáhaldsveiðistað á: johann@kolskeggur.is