You are currently viewing Harðlífi og hvekktir veiðimenn
Harðlífi og hvekktir veiðimenn

Það eru ekki alltaf jólin í laxveiðinni það er öldungis víst en veðrið hérna í vor hefur þó frekar minnt á blessaða vetrarhátíðina en sumarsælu. Við verðum bara að segja það eins og það er, þetta hefur verið hálfgert hörmungarhark hingað til. Hólsáin sem var búinn að gefa hátt í 40 laxa ( athugið hér læddist meinleg villa, þarna átti að standa ” í lok júní voru þeir hátt í 20 ” við biðjumst afsökunar á því- JDS 29.06) um þetta leiti í fyrra er núna í tveimur löxum, Eystri Rangá er að gefa þetta frá 0-3 löxum á dag en oftar nær fyrri tölunni. Ytri Rangá hefur þegar þetta er skrifað ekki enn gefið lax!

Og það eru ekki bara árnar í Rangárþingi sem eru seinar til leiks heldur má yfirfæra þessa óáran og aflatregðu á allt landið nema blessaðan Urriðafossinn sem virðist lúta öðrum lögmálum. En hvað veldur? Hefur laxaguðinn yfirgefið oss?

Líklega og mikið rosalega vonandi ekki. Þetta vor er búið að vera óvenjukalt og sumarið í framhaldi af því. Allar líkur eru á að laxinn sé hreinlega sirka tveimur – þremur vikum of seinn í partýið þetta sumarið. Nú er spáð hlýnandi veðri og svo er sjálfur Jónsmessustraumurinn nú í vikunni, þetta hlýtur að koma þá!

Við gefumst alltént ekki upp þó hægt fari af stað heldur horfum fram á við með bjartari tíð í vændum og árnar bláar af laxi.

Á myndinni má sjá Jónas K. Jóhannsson með einn glæsilegan úr Eystri, þeir koma vel haldnir úr hafi!

Jóhann Davíð –  johann@kolskeggur.is